24. júní 2013

Jónsmessunótt á Hvanneyri

 Afsakið, góðir lesendur, að safnsfrétt dagsins er ögn utan meginsviðs - og þó; saga er hún með sínum hætti:

 

Þannig stendur nefnilega á skrefi að í dag, á Jónsmessu 2013, eru rétt 70 ár liðin frá því að UMFÍ hélt sitt magnaða landsmót hér á Hvanneyri. Leita má fróðleiks um það á hinu stórgóða vefsvæði www.timarit.is

 

Mótið var gríðarlega fjölsótt, þóttist takast afar vel og var því lengi í minnum haft.

 

Gestum var holað í hvert skot á Hvanneyri; meira að segja gistu allmargir í Hvanneyrarhlöðunni. Dansað var á hverju kvöldi mótsdagana.

 

Keppnin fór fram á Fitinni, á bökkum Hvítár niður undan Hvanneyrartorfunni, nema sundið var þreytt í köldum polli frá Bæjarlæknum undan Tungutúni sunnan skólahúsanna. 

 

Meðal þeirra mörgu er mótið sóttu var Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal, ágætur ungmennafélagi til áratuga. Honum varð ekki svefnsamt Jónsmessunóttina og orti kvæði, sem hann flutti á einni af hátíðarsamkomum mótsins.

 

Með því kvæðið, Jónsmessunótt á Hvanneyri, hefur skýra búskapartengingu og tengist framvindu landbúnaðar verður því gerð tilraun til þess að hengja hljóðskrá með kvæðinu við þessa færslu - Hún kemur hér.

 

Njótið þið sem náið.