26. júní 2013

Kaupafólksganga og sveitasöngvar á Safnadegi 7. júlí

Hinn árlega Safnadag ber að þessu sinni uppá  sunnudaginn 7. júlí nk. 

 

Að venju verður af því tilefni gerður dagamunur í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Safnið verður opið kl. 12-17.

 

Aðgangur að safninu verður ókeypis þann dag en frjáls framlög gesta til safnsins þegin með þökkum.  

 

Kl. 13.30 verður Kaupafólksganga á Hvanneyrarengjar. Farið verður í fótspor kaupafólks á Hvanneyrarengjum á síðustu öld, hugað að sögnum, minjum, verkháttum og breytingum á þeim á hinu sérstæða votlendissvæði sem frá og með liðnu vori varð Ramsar-verndarsvæði.

 

Forgöngumenn Kaupafólksgöngunnar verða Bjarni Guðmundsson o.fl. 

 

Gestir eru eindregið hvattir til þess að taka með sér orf eða hrífu, nú ellegar forndráttarvél með greiðusláttuvél til stuttra heyverka ef þannig viðrar – í  félagsskap við fornsláttuvélar úr Landbúnaðarsafni.  

 

Verði óþurrkur færum við okkur inn í Halldórshlöðu safnsins og lögum dagskrá að henni.

 

Kl. 16 verður brugðið á leik með Sveitasöngvum í stórhlöðu Halldórsfjóss, er þá verður með „brekku“-söng frumreynd sem tónleikahöll. Forsöngvarar verða Snorri Hjálmarsson og fleiri.

 

Kl. 14-17 verður vöfflukaffi Kvenfélagsins 19. júní á boðstólum í Skemmunni, elsta staðarhúsinu. Það var reist árið 1896 og stendur í gróðurríku umhverfi syðst á Gamla staðnum.

 

Ullarselið verður að venju opið kl. 12-18.  Þar býðst al-borgfirsk hágæðavara og hver veit nema þar verði brugðið á leik með rokkum og fleiru.

 

Hægt verður að líta inn í hina fallegu og nær 110 ára gömlu Hvanneyrarkirkju, eina af listaverkum Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara.