5. júlí 2013

Sveitasöngvar á Safnadegi á Hvanneyri

Söngur er vænn hluti af íslenskri bændamenningu. Bændur, og aðrir, kváðu rímur, og varla safnast bændur saman í leitarkofa eða við hlé á réttardegi án þess að bresta í söng.

 

Kóramenning er rík á meðal bændafólks og óvíða gerast t.d. betri (skemmtilegri) karlakórar en í sveitum þessa lands.

 

Til var (og er) líka að bændur hafi á annatímum sest við hljóðfæri sín til þess að slaka á og hvíla sig ögn - nú, eða bara sungið við vinnu sína t.d. slátt, herfingu eða slóðadrátt á Ferguson, Farmal eða Zetor ...

 

Með allt þetta og fleira í huga efnum við til sveitasöngva á Safnadegi á Hvanneyri á sunnudaginn kemur, 7. júlí. Kl. 16 verður í hlöðu Halldórsfjóss efnt til söngstundar - eins konar brekkusöngs - þar. 

 

Tilefnið er líka að frumreyna hlöðu Halldórsfjóss, hluta hins verðandi safnrýmis, sem söng- og tónlistarhús.  Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir - og raunar lengur. 

 

Forsöngvarar verða þeir Snorri Hjálmarsson og Bjarni Guðmundsson.

 

Snorri er bóndi, hestamaður og lífskúnstner til margra ára á Syðstu-Fossum í Andakíl. Hann er líklega fjölhæfasti söngvari í íslenskri bændastétt, og hefur komið fram við urmul tækifæra og víða, allt frá leitarmannakofa Andkílinga til virtra sönghúsa í Evrópu, Norður Ameríku og Kanada; ... líka í samkomuhúsinu á Þingeyri.

 

Bjarni er gítarsláttumaður og talinn af Gísla Einarssyni fréttamanni vel brúklegur fjöldasöngvari. Nágranni Bjarna, Sverrir Heiðar Júlíusson, áleit hann meðal skárri gítarleikara í hópi íslenskra fræðimanna á sviði heyverkunar.

 

Það má geta þess að 30. nóvember nk. eiga þeir Snorri og Bjarni 50 ára samsöngsafmæli. Þann dag árið 1963 komu þeir fyrst fram saman á árshátíð Bændaskólans í Leikfimihúsinu á Hvanneyri.

 

Ekki hefur verið ákveðið að halda afmælistónleika í Hörpu af þessu tilefni - enda hefur svo sem enginn beðið þá félaga um það.

 

Verið velkomin til söngs - allir geta verið með.  Það þarf enga söngbók, það kunna allir textana. Klæðið ykkur samt hlýlega.