8. júlí 2013

Mannmargt á Safnadegi

Safnadagurinn var í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri í gær, eins og í þorra annarra safna landsins.

 

Ýmislegt var í boði. Farin var kaupafólksganga á Hvanneyrarfit. Meðferðis voru sláttutæki tveggja tíma: Orf og aldraðar dráttarvélar safnsins með tilheyrandi sláttuvéluim. 

 

Haldið var örnámskeið í orfslætti, þar sem Bjarni Guðmundsson safnstjóri og Sveinn Hallgrímsson bóndi á Vatnshömrum önnuðust jafningjafræðsluna.

 

Myndin sem fréttinni fylgir er frá örnámskeiðinu; hana tók Ásdís Helga Bjarnadóttir.

 

Safnið var opið og var aðgangur ókeypis. Kvenfélagið 19. júní var með vöfflukaffi í Skemmunni, Hvanneyrarkirkja var til sýnis og einnig Halldórsfjós, en í hlöðu þess fór fram lokaatriði dagskrárinnar - brekkusöngur undir stjórn Bjarna Guðmundssonar og Snorra Hjálmarssonar bónda á Syðstu Foissum.

 

Reyndist hljómburður hlöðunnar vera hinn ágætasti - en prófun hans var einn helsti tilgangur söngstundarinnar. Synilega er þar komið hið besta sönghús.

 

Gestir á Safnadegi voru um 250. Vert er að geta þess að nokkrir þeirra færðu safninu verðmæta gripi eða tilkynntu að falir væru safninu.  Verður frá þeim greint síðar.

 

Landbúnaðarsafn þakkar öllum þeim sem hjálpuðu til við framkvæmd dagskrárinnar - og ekki síður öllum þeim mörgu gesturm sem heimsóttu safnið.