28. júlí 2013

Ríflega aldargamall hestaplógur

Um fyrri helgi var heimsíðungur staddur á bæ einum norðaustanlands þar sem hann sá gamlan hestaplóg. Bóndi, sem er 5. ættliður á bænum, kunni sögu hans, kvað plóginn hafa komið frá Noregi um fyrri aldamót.

 

Heimsíðungur koðaði plóginn, mældi hann og myndaði.

 

Plógurinn er prýðilega varðveittur enda þurfa þeir þar eystra að kaupa salt í búð en fá það ekki gratís loftleiðis. Vantar aðeins skerann á plóginn.

 

Plóggerðin vakti athygli skrifarans. VALBY-heitir hún, líklega dönsk.

 

Hinir svonefndu Akureyrarplógar urðu mjög svipaðrar gerðar. Þá smíðaði Sigurður Sigurðsson járnsmiður á Akureyri í töluverðum mæli.

 

Hef ekki gert nákvæman samanburð enn, en Akureyrarplógur er til í Landbúnaðarsafni. Sá hefur að vísu frá fyrri tíð verið kenndur við Ólafsdal, en það er líklega rangt.

 

Heimsíðungur er að reyna að grafast fyrir um sögu hestaplóganna sem í notkun voru hérlendis í byrjun síðustu aldar, einkum þeirra er taldir eru hafa verið smíðaðir hérlendis.

 

Meðfylgjandi eru ljósmyndir af Austurlandsplógnum. Hann er dæmigerður akurplógur af evrópskri megingerð með fremur bröttu moldverpi.

 

Ætla má því að hann hafi verið þungur óunnum jarðvegi, jafnvel þótt áður hafi verið rist ofan af. Þeim mun betri t.d. við plægingu garðlanda en þau voru síðustu not þessa plógs að sögn eiganda hans.

 

Ef til vill rekist þið á svipaða hestaplóga; þá væri gaman að sjá af þeim mynd og heyra nánar um sögu þeirra.

 

Um fyrri aldamót var að hefjast ræktunarvakning hérlendis sem m.a. byggðist á nýjum og framandi hestaverkfærum.

 

Frá þeim er m.a. sagt í bókinni Frá hestum til hestafla, sem væntanlega kemur úr nú undir sumarlokin, sjá kynningu hér til vinstri á síðunni.