15. ágúst 2013

Rifhjól ...

. . . kallaði Árni G. Eylands sérstaka gerð brýnsluvéla fyrir sláttuvélarljái sem til landsins bárust með sláttuvélunum.

 

Smergelskífa með kambi í miðju sem þannig gat fallið að formi ljáblaðanna og hvatt eggjar þeirra – tvær gagnstæðar eggjar samtímis.

 

Brýnsluvélar þessar voru svo sem af ýmsum gerðum. Framan af handknúnar en síðar komu rafknúnar brýnsluvélar eins og sú sem hér er sýnd mynd af og safninu áskotnaðist nýlega.

 

 

Hversu algengar brýnsluvélarnar (rifhjólin) urðu hefur heimsíðungur litla hugmynd um. Af viðbrögðum safngesta virðist þó mega ráða að a.m.k. á dögum hestasláttuvélanna hafi þær ekki verið algengar. Fáir virðast hafa séð þær.

 

Svo virðist sem brýnslutæki hafi orðið algengari er sláttuvélar komu við dráttarvélarnar enda varð notkun þeirra flestra meiri en hestavélanna.

 

Á dögum sláttuvéla með ljá og greiðu fór allmikill tími í það að halda sláttubúnaðinum við: að brýna ljáinn, festa blöð ellegar skipta um brotin blöð.

 

Þegar sláttuþyrlan hélt innreið sína hérlendis undir lok sjöunda áratugs síðustu aldar þótti mörgum helsti kostur hennar vera sá hve mjög skrapp saman vinnan við hirðingu ljás og greiðu:

 

Nú var bara að skipta um „ljáblöð“ ef brotnuðu, týndust eða slitnuðu óeðlilega. Afl dráttarvélarinnar og ógnarhraði „ljáblaðanna“ sáu um að fella grasið þótt eggjar blaðanna væru teknar að sljógvast.

 

Þess vegna lauk hlutverki og tíma ljábrýnsluvélanna – rifhjólanna – og sumar enduðu afsíðis uppi í hillu, lítt og ekki notaðar eins og þessi sem myndin er af.

 

Höfðu þó gert nokkurt gagn.