5. september 2013

Kennslubók frá Ólafsdal - safninu færð

Ágætur velvildarmaður safnsins hafði samband fyrir nokkru og kvaðst hafa undir höndum handskrifaða kennslubók frá Búnaðarskólanum í Ólafsdal.

 

Bókin hafði verið í vörslu forfeðra hans vestrá Fjörðum en hann vildi koma bókinni á viðeigandi stað til varðveislu.

 

Útfallið varð að hann færði safninu hér á Hvanneyri bókina, sem er hin merkilegasta. Mynd af henni fylgir klausu þessari.

 

Þótt nokkuð væri til af prentuðum kennslubókum á tímum Ólafsdalsskólans (1880-1907) þurfti líka að styðjast við uppskriftir fyrirlestra: Líklega las þá kennarinn (Torfi Bjarnason) upp texta sem nemendur skrifuðu. (Sá kennsluháttur tíðkaðist t.d. á Hvanneyri fram um 1970 í örfáum tilvikum, svo heimsíðungur geti um vitnað).

 

Þannig var með kennslu Torfa um verkfæri til bústarfa; hann hafði samið texta um þá nýlundu, enda sérlega vel búinn kunnáttu á því sviði.

 

Umrædd bók er einmitt Um Verkfærin. ..."samið hefir Torfi Bjarnason í Ólafsdal".  Svo hógvær hefur skrifarinn verið að hann getur ekki nafns í handritinu. Með hjálp Sigríðar Hjördísar Jörundsdóttur á Landsb./Háskólabókasafni, sem er sérfræðingur í skjalasafni Torfa og ýmsu öðru er hann varðar, höfum við gengið úr skugga um að þetta er ekki rithönd Torfa.

 

Bókin er að öllu leyti ómerkt skrifara sínum, það höfum við gengið úr skugga um. Því væri einasta leiðin að þekkja hana af rithöndinni. Ef svo ólíklega vildi til að einhver þekkti hana, væri gaman frá honum að heyra.  Heimsíðung grunar að textinn sé sá sem notaður var á seinna skeiði Ólafsdalsskólans en það getur hann þó ekki staðfest.

 

Í bókasafni Tómásar og Vigdísar á Hvanneyri eru a.m.k. tvær aðrar uppskriftir til sama efnis; textum þeirra ber saman en ekki rithönd. Þessi bók er afar verðmæt viðbót við gögn úr skóla Torfa.

 

Bókin sem slík er sýnilega heimagerð, 17,0 x 10,5 cm, innbundin, 156 tölusettar bls. Bókin er ekki línustrikuð en með blýanti hefur efri spássía verið mörkuð. Víða eru millifyrirsagnir skreyttar lítillega. Rithönd er skýr og auðlesanleg, sjá mynd.

 

Við þökkum hinum hugulsama gefanda fyrir verðmætt gagn er bætist nú við verkfærin hans Torfa sem allmörg eru til í Landbúnaðarsafni.