11. október 2013

Fjölyrki jarðyrkjumanns í Reykholti

 

Vér höldum oss ekki langt frá Reykholti þar sem lesið var fyrir um hesta og hestöfl með borgfirskum jarðræktarsögum við fjölmenni sl. þriðjudagskvöld í Snorrastofu, sbr. fyrri "götuauglýsingar".  Heimsíðungur þakkar öllum kærlega er kómu.

 

Á úthallandi degi í gær kom Reykholtsklerkur, síra Geir Waage, færandi hendi Landbúnaðarsafni, á vagni sínum, svo sem nú skal greina: 

 

Undir verndarvæng síra Geirs hafði um langar tíðir (og þar áður Jóns Þórissonar í Reykholti) verið herfi eitt sérstætt, komið úr búskap Andrésar Kjerulf er var jarðyrkjumaður í Reykholti. Kom þangað til starfa hjá Kornræktarfélagi Reykdæla um miðjan fjórða áratug síðustu aldar.

 

Andrés var afar vel menntaður jarðyrkumaður, hafði numið víða og vel.

 

Herfið það arna mundi vera það sem kallað er "kultivator" á erlendum málum, þ.e. verkfæri til þess að nota á vaxtartíma nytjajurta fremur en til nýbrots og frumvinnslu lands.

 

Herfið hefur 5 anga til vinnslu, sennilega illgresiseyðingar og hreykingar, að heimsíðungur ætlar. Við þau verk má ætla að einn dráttarhestur hefið valdið því auðveldlega.

 

Annars má sjá gerð herfisins á meðfylgjandi ljósmynd (myndina má stækka). Herfið er allvel heilt; skipt hefur verið um sköpt en að öðru leyti er það í sínu standi.

 

Ekki hefur tekist að finna út framleiðanda herfisins enn, en vér eigum eftir að grandskoða það við forvörsluna, sem nú verður ráðist í.

 

Oss þætti ekki slæmt ef einhver dyggur lesandi kannast við svona herfi að heyra frá þeim hinum sama.

 

Gripurinn er safninu ágætur fengur, sakir sögu herfisins og þess að það er fulltrúi tímanna á framanverðri síðustu öld þegar menn voru að þreifa sig áfram með margvísleg verkfæri til ýmisskonar ræktunar - verkfæri sem dregin voru af hestum.

 

Safnið kann síra Geir góðar þakkir fyrir hirðusemina.