23. október 2013

Aldin vindrafstöð gefin safninu

Fyrir nokkrum dögum rak okkur vestrí Miðdali. Erindið var að vitja vindafstöðvar sem þar hafði verið notuð,  og síðan varðveitt um liðlega 60 ára skeið. Pússuð nýlega. Góður gripur, sem við segjum etv betur frá síðar.

Vindrafstöðvar bar hingað til lands, líklega flestar frá Ameríku, þar sem þær voru afar algengar á sveitabæjum. Þeirra er hvað fyrst getið hér í sveitum undir lok fjórða áratugs síðustu aldar.

 

Hérlendis nutu þær mikilla vinsælda um tíma, áður en samveiturafmagni var veitt um sveitir. Þær virðast hafa breiðst mjög hratt út um byggðir landsins. Nokkur héraðamunur var á útbreiðslu þeirra. Þær voru t.d. sagðar hafa verið mjög algengar í Miðdölum.

 

Vindrafstöðvar voru taldar 1610 árið 1945, hafa þannig verið á fjórða hverju sveitaheimili um þær mundir, sjá Búvélar og ræktun Árna G. Eylands.

 

Vindrafstöðvar voru framleiddar í ýmsum stærðum. Framleiðsla þeirra var að sönnu misjöfn eftir veðrum og vindi, en með rafhlöðum mátti jafna nýtinguna nokkuð. Þær dugðu til ljósa sem þótti gott þegar aðrir kostir voru nær eingöngu olíuljós.

 

Ein fyrsta greinin sem birtist um vindrafstöðvar til sveita kom í Búfræðingnum 7. árg. 1940, bls. 111-113. Þá grein má finna á www.timarit.is

 

Enn má allvíða sjá minjar um vindrafstöðvar, t.d. steypta stólpa á hólum við bæi og leifar rellu-turnanna á þeim. Vindrafstöðvum bregðiur líka fyrir á ljósmyndum frá miðri síðustu öld.

 

Eitthvað hefur svo varðveist af búnaði vindrafstöðvanna, án þess að um það sé nákvæmlega vitað., bæði á söfnum og í fórum einstaklinga

 

Okkur þætti vænt um að heyra frá fólki sem æskureynslu hefur af vindrafstöðvunum. Ekki mundum við heldur slá höndum á móti ljósmyndum, bæklingum eða öðru pappírsku efni um vindrafstöðvar, sögum og sögnum um þær ofl. ...

 

Við hvetjum lesendur, sem luma á efni, til þess að hafa samband.