26. nóvember 2013

Gömul tilraunasláttuvél frá Sámsstöðum

Nokkrar tilraunastöðvar í jarðrækt voru starfræktar hérlendis á síðustu öld. Starf þeirra lagði grunndvöll að nýrri og verðmætri þekkingu um ýmsar hliðar jarðræktar ekki síst plöntunæringar og áburðarnotkunar.

 

Ein slík tilraunastöð var á Sámsstöðum í Fljótshlíð.  Þaðan er komijn sláttuvélin sem við drógum fram úr geymslu Landbúnaðarsafns á dögunum. Nú er Jóhannes Ellertsson að pússa hana og liðka.

 

Sláttuvélin er bandarísk, frá National Mower Co með Briggs og Stratton-bensínmótor. Við álítum hana vera frá  mioðri síðustu öld, ef til vill árunum 1945-1950.

 

Handstýrðar sláttuvélar af þessu tagi breiddust einnig út á meðal bænda, lætur heimsíðungur segja sér, og víst er um það að þær voru auglýstar í blöðum hérlendis þegar á 4. áratug síðustu aldar. Afar lítilli útbreiðslu náðu þær þó.

 

Sámsstaða-vélina hyggjumst við brúka sem fulltrúa sláttutækni á hinum merku tilraunastöðvum fyrr á tíð.

 

Greiða sláttuvélarinnar er réttur 1,0 m á breidd. Hún er hálfgróf eins og Árni G. Eylands kallaði þær, 2 tommu bil á milli tinda og ljáblöðin eru jafnbreið.

 

Sláttuvélar með hálfgrófri greiðu voru afar fátíðar hérlendis, sagði Árni. Myndin sýnir sláttuvélina til lagfæringar á vinnuborði Jóhannesar vélameistara safnsins.

 

Ólafur R. Dýrmundsson, er var tilraunamaður á Sámsstöðum, kveður sláttuvélina ekki hafa verið notaða sumarið 1967 er hann var eystra.

 

Hins vegar upplýsti Kristinn Jónsson tilraunastjóri þar, nú látinn, að Björn Jóhannesson jarðvegsfræðingur hafi keypt vélina (og aðra til), en hann nam fyrir vestan haf og gjörþekkti því til allra aðstæðna þar.  Björn mun hafa komið heim frá doktorsnámi sínu í Cornell árið 1945 til starfa hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands.

 

Ef til vill þekkir einhver lesenda síðunnar betur til mála, eða kannast við slíkar vélar, og þá væri gaman frá honum að heyra.