8. desember 2013

Að slá ísastör

Nú er líklega farið í geitarhús að leita ullar:  Heimsíðungur hefur verið að draga saman föng til íslenskrar sláttusögu. Þar er af mörgu að taka.

 

Eitt af því sérstæða í þeirri sögu er að í vissum héruðum landsins slógu menn ísastör, er svo var kallað: Er haustfrost lögðu ís yfir votengjar tóku menn orf sín og ljái og slógu stargresi á ís, þ.e. þann hluta þessara góðu fóðurjurta er upp úr ísnum stóð.

 

Mun slátturinn hafa verið þægilegur, jafnvel mátti nota "tréljá" skrifaði einhver, og fljótlegt var að verka heyið og gera það geymsluhæft. Og það sem meira var; þetta var víst ágætis fóður oft og tíðum.

 

Þótt efast sé um að margir þekki lengur til þessa verkháttar af eigin raun er hér samt lögð fyrirspurn fram um hvort svo sé - að einhver þekki til eða hafi heyrt sögur af slíkum heyskap?

 

Svipast hefur verið um eftir ljósmyndum sem gætu hafa verið teknar við þær aðstæður: Hugsanlega gætu þær leynst í einkasöfnum - Það er svo ótrúlega margt sem ratað hefur inn á filmu en ekki í opinber söfn!

 

Spurningin snýst sem sagt um slátt á ísastör ?!?