16. desember 2013

Stuttmyndir úr Landbúnaðarsafni

 Með þessum pistli langar okkur til þess að tjá heimsbyggðinni að á heimasíðu Landbúnaðarsafns Íslands hefur kerfisstjóri safnsins, hún Eva Rós Björgvinsdóttir hjá www.nepal.is nú sett nýjan glugga, sem hefur vinnuheitið Stuttmyndir úr Landbúnaðarsafni.

 

Glugginn er hér til vinstri. Við erum svo sem ekki búin að fínstilla framsetninguna enn, enda erum við að þreifa okkur áfram með formið.

 

Hugsunin er sú að setja þar inn örstutt myndskot sem tengjast gripum, munum og minjum safnsins, með smáspjalli til fróðleiks. Ef til vill getur þetta frætt einhverja sem áhuga hafa á safninu, en eiga ekki kost á því að heimsækja það á hverjum degi.

 

Verði viðtökur góðar (og raunar hvort eða er!) ætlum við bæta nokkrum stuttmyndum við eftir því sem geta okkar leyfir.

 

Hugmyndin að þessari nýbreytni er eiginlega komin frá honum Áskeli Þórissyni, kynningarstjóra LbhÍ, sem hefur haft veg og vanda af tæknivinnslu þáttanna.

 

Erlend söfn nota þetta form í vaxandi mæli og hérlendis mun það ekki vera óþekkt hvað söfn snertir.

 

Það væri svo sem gaman að heyra frá ykkur lesendum um hvað ykkur þykir um tilraun þessa. Þá getum við etv bætt okkur og/eða komið enn betur til móts við þarfir ykkar og áhuga.