23. janúar 2014

"og leist til mín um rifinn skjá"...

Það væri nú hreinn hofmóður að tala um rannsóknarverkefni í þessu sambandi, en þó:

 

Á sauðburði og algengasta köstunartíma kynbótamera á liðnu vori hóf heimsíðungur að gera athuganir á því hvernig skjáir voru búnir til. 

 

Skjáir - gluggar fortíðar - voru nefnilega mikil þarfaþing í myrkrum aldanna.

 

Fyrst las hann allt sem hann fann. Hitti svo Þórð í Skógum við safnheimsókn þangað; Þórður kvað verkið bæði og tilgjörðina vera sáraeinfalda og var þar með farinn að sinna næsta (fransmanna)hópi.

 

Þau virtu hrossaræktunarhjón Dagný og Þorvaldur á Innri-Skeljabrekku hjálpuðu mér við útvegun hilda, en áður hafði ég notið aðstoðar Sigrúnar systur minnar á Kirkjubóli við Dýrafjörð við distilleringu ærhilda í þessu skyni.

 

Hildirnar hafði ég strekkt á ramma af ýmsum gerðum, sjá mynd sem dæmi um eina gerðina.

  

Tímann lét ég um að þurrka skjáefnið og síðan hóf ég prófanir á styrk skjáefnisins.

 

Uppkast að rannsóknaritgerð liggur fyrir. Ég tek það fram að ég hef hvorki sótt um styrki til verksins né heldur unnið það í opinberum vinnutíma.

 

Við fyrstu athuganir kom í ljós að þurrkaðar merarhildir hafa gífurlegt togþol sé rétt á þeim tekið, sjá fyrri myndina,  en rifþolið virðist minna en dagblaðssíðu ...

 

Áður en ég birti ritgerðina þarf ég að endurtaka hluta rannsóknanna á komandi vori, einkum með kapalhildir og fleiri skjáform en líka...

 

... kanna hvort einhver þarna úti hefur eitthvað að miðla mér um málefnið? 

 

Góðu vinir! Ef þið lúrið á einhverjum fróðleik í þessa veru hefði ég gaman að því að heyra frá ykkur.

 

PS: Þurrkaðar hildir eru fyrirtaks efni til listrænnar sköpunar sakir þeirra fallegu mynstra sem í þeim eru ...