4. febrúar 2014

Af fornminjum og fornminjalíki

Þessa dagana er það m.a. að frétta úr Halldórsfjósi að Unnsteinn hleðslumeistari Elíasson frá Ferjubakka er að hlaða skemmuvegg sem verður hluti sýningar Landbúnaðarsafnsins. Skemman á að minna gesti á forna tíð, og helstu áhöld til útibúverka í aldanna rás. Eftirgerð eldsmiðju á að vera þar nærlendis.

 

 

Á öðrum stað í safninu er verið að útbúa búsverkstæði annó 1950-1960, þegar dráttarvélar voru komnar til sögunnar. Það verður því ögn nútímalegra en hitt fyrra.

 

Þar erum við svo heppinn að stofninn að verkstæði Hvanneyrarbúsins frá þessum árum er enn til með "haus og hala". 

 

Meðfylgjandi mynd sýnir brot af varahlutahillunum. Hluta þeirra er nú verið að flytja yfir í búsverkstæði sýningarinnar með öllu sem í þeim er, varahlutum frá IHC, Massey Harris, Lucas, Ferguson o.s.frv. Kennir þar sannarlega ýmissa grasa, eins og þessi mynd sýnir: tannhjól, keðjur, kerti, legur, startarar, rafalar ...

 

Jóhannes Ellertsson sér um að ekkert ruglist og að allur flutningurinn gangi skipulega fyrir sig.