25. febrúar 2014

Framlag Vélfangs til styrktar Þúfnabananum

Á Facebook var fyrir nokkru stofnuð síða um málefni Þúfnabana Landbúnaðarsafnsins. Síðuna stofnaði Gísli Birgir Gíslason og hafa ýmsir sýnt henni áhuga.

Í gær birtist á síðunni tilkynning frá Eyjólfi Pétri Pálmasyni fyrir hönd Vélfangs hf (www.velfang.is ) með fyrirheiti um  framlag fyrirtækisins til viðfangsefnisins.

 

Landbúnaðarsafn þakkar Vélfangi þetta myndarlega fyrirheit og metur það afar mikils. Tilkynning Eyjólfs Péturs fer hér á eftir:

 

Við hér hjá Vélfangi höfum haft áhuga á að gera Þúfnabananum hærra undir höfði. En eftir að hafa heimsótt hann ásamt dönskum vélasafnara og sjá viðbrögð hans og einbeittan áhuga á að ná vélinni til Danmerkur þá sá ég hversu mikils virði er að koma tækinu í betra horf og ekki síður halda honum hér á landi. Við hjá Vélfangi viljum því bjóða fram 150.000 kr í peningum og starfsmann af verkstæðinu okkar í eina viku án endurgjalds þegar hentar en þó yfir vetrartímann. Vona að þið viljið þiggja það og koma verkefninu í gang.