26. febrúar 2014

Form og lögun fjárrétta?

Tvennt þveraði götu heimsíðungs síðasta sólarhringinn, sem hér skal nefnt:

 

A. Ágæt kona, mér aðeins kunn af afspurn, sendi mér í gær afar fróðlegan bækling um Skaftholtsréttir Gnúpverja, sem nú eru nýendurreistar. Myndin, sem hér fylgir, er af þeim.

 

B. Frændi minn af Samsonarætt, Samson B. Harðarson, spurði mig um form og lögun fjárrétta, vegna spurningar þar upp á er komið hafði í tengslum við verkefni sem nemendur hans við LbhÍ voru að vinna. Við henni átti ég lítið og loðið svar.

 

Skaftholtsrétt fylgir hinu hagkvæma hringformi eins og ýmsar aðrar stórfjárréttir á landinu, s.s. Reykjaréttir, Þverárrétt, Oddsstaðarétt ofl.

 

Aðrar réttir fylgja köntuðu formi eða blönduðu. Í hugann koma Skarðsréttin gamla í Borgarfirði, Brekkurétt þar, Fljótstungurétt og Hraunsrétt í Aðaldal (?) til dæmis.

 

Spurning Samsonar laut að aldri formanna, hvort hugsanlega væru misgömul, og þá að yngri réttir í stór-fjársveitum fylgdu frekar hringforminu, eða hvort bæjafjöldi upprekstrarsvæðis kæmi þar meira við sögu sem áhrifaþáttur.

 

Heimsíðungur fletti upp í bókinni Göngur og réttir, svo og Þjóðháttabók Jónasar og Lýsingu Íslands eftir Þorv. Thoroddsen, án teljandi árangurs (enn). Daniel Bruun er líka fámáll um réttir.

 

Vitað er að heiðursmaður einn í Stykkishólmi, Ásgeir Gunnar Jónsson, hefur rannsakað réttir þar vestra með afar athyglisverðum hætti. Væri gaman að heyra frá honum...

 

Heimsíðungi þætti rart ef ekki hefur einhvers staðar verið skrifað um viðfangsefnið. Í leti sinni varpar hann því spurningunni um það út til lesendanna - þarna úti. Það hefur oft gefist vel.

 

Örugglega hafa einhverjir þar efni til málanna að leggja, ábendingar um heimildir, eigin athuganir, frásagnir heimildarmanna og kenningar þeirra, myndir, dæmi.

 

Við þiggjum allar ábendingar. Ef til vill er þetta kjörið námsverkefni fyrir nemendur  t.d. við LbhÍ, nú eða Listaháskólann.

 

Réttir eru hluti af byggingararfi okkar og ekki ómerkari en önnur mannvirki. Um réttirnar fóru hvað mikilvægustu verðmæti þjóðarinnar í aldanna rás - sauðféð - og um afrétti, göngur og réttir giltu afskaplega merkileg og forn lagaákvæði. Þau sýna mikilvægi málsins ...