10. mars 2014

Varahlutahillurnar gömlu

Að þessu sinni er birt mynd af varahlutahillu gamals vélaverkstæðis Bændaskólans á Hvanneyri. Þessa dagana er verið að færa hluta þess yfir í væntanlega sýningu safnsins í Halldórsfjósi.

 

Að stofni til er það sem á myndinni sést frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Þar kennir ýmissa grasa: Varahluta í ýmsar gerðir verkfæra og véla, aðallega dráttarvéla.

 

Farið verður með hillurnar og það sem í þeim er á hinn nýja stað. Hillurnar voru að sjálfsögðu smíðaðar heima, ef til vill úr fjölum kassanna sem verkfærin komu í ?

 

Þótt varahlutirnir kunni að vera merkilegir höfum við þó skemmt okkur meira yfir óhreinindum á hillunum sem m.a. geyma fingraför vélameistara sem fyrr á tíð fóru hönum um Hvanneyrarvélarnar:

 

Guðmundur ráðsmaður Jóhannesson sá einstaki hugvitsmaður og eldhugi, Haraldur Sigurjónsson staðarsmiður er gat gert við allt, jafnvel Gunnlaugur Gunnlaugsson, einn fyrsti þúfnabanastjórinn, sem um árabil kenndi á vélanámskeiðunum sem haldin voru á hverju vori á Hvanneyri til þess að breiða út nauðsynlega nýþekkingu á fyrstu árum dráttarvéla í almenningseign ...

 

Þessar gömlu spýtur og þessar lúðu varahlutaumbúðir gætu eflaust sagt marga sögu mættu þær mæla. Þið munið hitta þetta söguhorn þegar safnið verður opnað á hinum nýja stað ...