12. mars 2014

Siggi Skarp kom færandi hendi

Í gær, 11. mars 2014, kom Sigurður Skarphéðinsson færandi hendi. Í kerru sinni hafði hann gljápússaði kartöfluupptökuvél af fornri Ferguson-gerð.  Vélin er komin frá Keldum í Mosfellssveit og er sennilega frá sjötta áratugnum.

 

Sigurður hefur pússað vélina upp fagurlega og lagði í verkið mikla vinnu en Ferguson-félagið greiddi útlagðan kostnað við verkið.

 

Nokkuð mun hafa komið af þessum vélum án þess að við höfum áreiðanlega tölu um fjölda þeirra.

 

 

Landbúnaðarsafni er mikill fengur að kartöfluupptökuvélinni og þakkar Sigurði og Ferguson-félaginu kærlega fyrir liðveisluna. Á myndinni má sjá Sigurð afhenda safninu gripinn, sem þarna er kominn aftan í Ferguson-dráttarvél er fjölskyldan að Brekku í Norðurárdal færði safninu fyrir nokkrum árum.

 

Annars var heimsíðungur búinn að svipast um eftir Ferguson-tæki sem þessu í nærri tvenn kjörtímabil. Hafði fest auga á einu slíku undir réttarvegg á ónefndum stað. Var vélin sameign tveggja fjölskyldna. Önnur fús að gefa safninu gripinn, hin ófús – kvaðst mundu pússa vélina upp sér til sumaryndis. Heimsíðungur skildi þá afstöðu og virti.

 

Keldnavélin er að því leiti heppnari að nú hvílir hún gljándi í hlýju og verðugu umhverfi meðal hliðstæðra menningarminja. Hin húkir enn, að því best er vitað, undir réttarveggnum í híbýlum vindanna, sjálfsagt kölluð járnadrasl (NB: kartöfluupptökuvélin er að miklum hluta úr áli, segir Siggi mér...) og rusl af einhverjum nágrönnum.

 

Svona veltist nú veröldin. Sigurður kom með margt fleira verðmætt góss til safnsins. Við segjum frá því síðar.