17. apríl 2014

Búfræðibókagerð með fornum ritföngum

Laust fyrir síðustu jól afhenti góð samstarfskona, Hafdís Pétursdóttir, heimsíðungi dálítinn pakka umvafinn bleikri slaufu. Í pakkanum leyndust ritföng frá sjötta áratug síðustu aldar sem notuð voru við gerð kennslubóka við Bændaskólann á Hvanneyri.

 

Kynni okkar tveggja af gripunum og tækni við beitingu þeirra hófust með október 1965, en þá þurfti að búa til tvær kennslubækur á Hvanneyri: Áburðarfræði eftir Magnús Óskarsson og Jarðvegsfræði og vatnsmiðlun eftir Óttar Geirsson.

 

Við tvö settumst að verki: Hafdís að vélritun textans, en hún er einn hraðvirkasti og vandvirkasti ritari sem ég hef kynnst. Allt vélritað á stensla, svo villur voru illa séðar - enda sárafáar hjá Hafdísi.

 

Í minn hlut kom að teikna nokkrar myndir í eyður sem Hafdís skildi eftir á viðeigandi stöðum á stenslunum. Þá var gripið til áhaldanna sem myndirnar eru af er pistlinum fylgja.  Lærimeistari minn var hún Hanna Frímannsdóttir sem þá hafði starfað á Hvanneyri en síðar varð þekkt fyrir tískustörf sín (Karon).

 

Áhöldin voru málmreglustrika og pennar hvað sköftin snerti en oddarnir lágu mitt á milli kleinujárns og tannlæknaáhalda. Með mismunandi pennum var hægt að skrifa og teikna á stensilinn, og með sæmilegri æfingu teikna myndir sem létt gátu nemendum skilning á efninu. Töluverðan tíma tók það byrjanda að teikna hverja mynd - og árangurinn varð svona og svona ...

 

Síðan var stensillinn settur í Rex Rotary-fjölrita og hægt og sígandi varð til kennslubók.

 

Um tíma var þessi tækni allmikið notuð á Hvanneyri - við kennsluefnisgerð, vinnslu fréttabréfa Búnaðarsambands Borgarfjarðar ofl.

 

Því er þessi spistill settur hér blandinn persónulegum veigum að gerð og útgáfa innlends búfræðiefnis var lengi þáttur í starfi búnaðarskólanna. Hann er því hluti íslenskrar búnaðarsögu.

 

Mikið af útgefnu efni búnaðarskólanna hefur varðveist og er að finna m.a. í einstæðu bókasafni Tómásar Helgasonar frá Hnífsdal og konu hans Vigdísar Björnsdóttur er þau gáfu Hvanneyrarskóla árið 1989.

 

Þetta var lítil saga um litla penna sem nú hafa eignast rými í Landbúnaðarsafni Íslands.