25. apríl 2014

Tímamót - Fyrstu gripirnir bornir inn

Gleðilegs sumars óskum við ykkur öllum og þökkum veturinn.

Í morgun sprungu fyrstu túnfíflarnir út við dyr Halldórsfjóss þar sem unnið er að undirbúningi sýningar Landbúnaðarsafns.

 

Við erum að byrja að mæla okkur við nýjar aðstæður: prófa efni, útlit, skipulag og fleira en ætlum okkur góðan tíma til verksins.

 

Hins vegar þótti okkur þessi dagur, Gangdagurinn eini, henta vel til þess að bera fyrstu gripina inn í safnið og tylla þeim á framtíðarstaði sína í athugunarskyni.

 

Í dag er líka fyrsti föstudagur í sumri, sem við höfum tröllatrú á til þess að marka upphaf þessa verkáfanga. Ekki spillti heldur að túnfífillinn blómstraði á þessum degi í kverkinni við dyrnar að safninu.

 

Við Jóhannes Ellertsson bárum þrjá gripi inn í safnið: Allt verkfæri frá Torfa í Ólafsdal, svo sem ekki er óviðeigandi: Hestaplóg (yngri gerðina), tindaherfi og lappaherfi. Umbylting verkhátta til nútíma hófst einmitt með umbótum í jarðræktinni - með því að ráðast á þúfurnar og eyða þeim.

 

Þórunn Edda varð vitni að atburðinum laust fyrir kl. 14, og tók margar myndir af honum, hvar af nokkrar fylgja þessum pistli.

 

Við gátum ekki betur séð en vel færi um gripina á hinum nýja stað.

 

Fjölmargt er ógert enn áður en sýning verður opnuð, en okkur langar til þess að láta ykkur fylgjast með framvindu verkanna.

 

Í gær, á Safnadegi Vesturlands, leiddum við allnokkra gesti um húsakynnin, og er það liður í því að segja frá því sem verið er að gera. Svo mjög hefur almenningur stutt við þetta verk að maklegt er að hann sjái hvað gert er.

 

En sem sagt, hálfnað er verk þá hafið er. Kíkið á ljósmyndirnar sem fréttinni fylgja.