3. maí 2014

"Steinarnir tala" í safninu

 

Þeir Húsafellshöfðingjar, Steini og Palli, voru svo vinsamlegir að útvega okkur Unnsteini grjóthleðslumeistara nauðsynlegar hellur í smiðjugólf sem útbúið hefur verið í vegna nýrrar sýningar í Halldórsfjósi.

 

Meðal þessara hellna eru gamlar fjóshellur frá Húsafelli, sem nú eru færðar á milli fjósa, þó í sama lögsagnar- og prófastsdæmi.

 

Svo gamlar eru þessar hellur að glöggt má sjá á þeim slit áratuganna eftir rekur og jafnvel stórgripaherðablöð - ef til vill einnig tungur einhverra púka sem Snorri Húsafellsprestur kann að hafa beygt undir ok sitt í glímum þar efra, hver veit?

 

Víst er um það að hellan sem á myndinni má sjá fyrir fótum fyrirsætunnar gæti marga sögu sagt mætti hún tala.

 

Nú hefur Unnsteinn grjóthleðslumeistari komið henni og félögum hennar snoturlega fyrir í téðu smiðjugólfi. Þar sóma þær sér vel og verða varðveittar til framtíðar.

 

Það eru því ekki aðeins steinarnir hans Þórbergs sem geta talað . . .