3. júní 2014

Minningargjöf frá Noregi

Á dögunum heimsóttu safnið norskir gestir, frá Týsnesi nær Bergen.

 

Erindi þeirra fyrir utan það að skoða safnið var að færa safninu gjöf til minningar um Ole Myklestad (1841-1918).

 

Myklestad kom til Íslands í byrjun síðustu aldar (1903) sem fjárkláðalæknir en hann hafði þá þegar með árangursríkum hætti unnið að útrýmingu kláðans í Noregi.

 

Fjárkláði hafði  gert mikinn skaða hérlendis og við hann hafði verið barist lengi.

 

 

Myklestad hóf strax að kenna mönnum að þekkja kláðamaurinn og að vinna á honum (sjá m.a. tímaritið Andvara 1907, bls. 12-13).  Það var Páll Briem amtmaður sem hlutaðist til um komu Myklestad er fór víða um land. Myklestad vann í ein þrjú ár að verkefninu og hlaut lof Íslendinga fyrir árangurinn. Kóngur veitti honum einnig Dannebrogsorðuna fyrir viðvikið.

 

Myklestad heillaðist svo af Íslandi að hann skrifaði bók um ferð sína um landið: “Gjennem Island paa kryds og tvers”.

 

Það var Kári Malkenes sem orð hafði fyrir hinum norsku gestum en hann ferðaðist um landið nú í maí í fótspor Myklestads.

 

Gjöf Kára var mynd af Ole Myklestad með sérstakri kveðju frá frænda hans, Ásbirni Myklestad, er nú býr við holdanaut á óðali ættarinnar auk fjærfjörustarfa hjá námufélaginu Statoil.  Myklestad-ættin hefur búið þar mann fram af manni síðan um 1700. 

 

Þá afhenti Kári einnig fánaskjaldarmerkiskveðju frá heimasveitarfélagi þeirra Miklstæðinga, Týsnesi.

 

Eyjólfur Kristinn Örnólfsson tók við gjöfunum fyrir hönd safnsins, kynnti þeim LbhÍ og sýndi þeim í fjárhúsin að Hesti þar sem sauðburður var á fullu.

 

Landbúnaðarsafn þakkar Kára og  þeim Týsnesingum fyrir heimsóknina og góðar gjafir.