2. september 2014

Af áburðartilraunum BÍ 1955

Við gripaflokkun á vestfirskum bæ fyrir nokkru komi í ljós tvö merki, áletruð krossviðarspjöld, tæplega 50 ára gömul, frá þeirri tíð þegar ráðunautar frá Búnaðarfélagi Íslands fóru um sveitir og gerðu tilraunir með tilbúinn áburð.

 

Tilgangur tilraunanna var öðrum þræði að kynna bændum leyndardóma hagfelldrar áburðarnotkunar.

 

Valinn var bær í hinum ýmsu sveitum og tilraunirnar lagðar út eins og það heitir. Bændum var stefnt þangað bæði til þess að sjá til verka fræðimannanna og að hlýða á fræðslu þeirra. 

 

Er að slætti kom mættu ráðunautarnir og vógu uppskeru reitanna. Þegar haustaði komu ráðunautarnir enn og fræddu bændur um niðurstöður tilraunanna, sem auk þess voru birtar í ritum Búnaðarfélagsins.

 

Heimsíðungur minnist þessara verka og þá einnig merkjanna sem stóðu skipulega við hina ýmsu reiti tilraunanna þar í túni.

 

Fáir eru lengur til frásagnar um þessi fræðastörf, en merkin tvö hafa geymst og verða að duga sem áþreifanlegar minjar um mikilvægan þátt í framvindu hagnýtra búfræða.

 

Kannski ætti ég að biðja menn um að svipast um eftir fleiri slíkum merkjum, ef vera kynnu til á hirðuheimilum?