21. september 2014

Gljáandi IHC 10-20 kemur til tímabundinnar dvalar

Þjóðminjasafnið léði okkur skv. sérstökum millisafnasamningi forkunnarfagra hálfníræða dráttarvél, IHC 10-20, fulltrúa þeirra er fyrstu ræktunarstórbyltingunni ollu hérlendis.

 

Jötunn-vélar ( www.jotunn.is ) á Selfossi kostuðu flutning á henni frá Rvík að Hvanneyri og lögðu til bifreið til hans, fulltrúar Ferguson-félagsins (Siggi Skarp og Sigurmundur) komu vélinni á bílinn í Rvík og starfsmenn safnsins og PJ-bygginga náðu henni af á Hvanneyri og komu henni á sinn heiðursstað í safninu.

 

 

 

Dráttarvélin er engin léttavara: 2,5 tonn á járnhjólum sem virka eins og kleinujárn á allt sem undir er ...

 

Þessa dráttarvél gerði Pétur Jónsson vélvirki upp fyrir Þjóðminjasafnið.  Hún er árgerð 1931 og var áður eign búnaðarfélaga Engihlíðar- og Vindhælishreppa, sjá bls. 37 í bókinni Alltaf er Farmall fremstur.

 

Á sl. vori sendi Haukur Pálsson á Röðli í A-Hún. safninu lýsingu sína að vinnu með þessari vél en með henni vann hann að jarðabótum á sínum tíma. Frásögn Hauks er afar merkileg lýsing á vinnubrögðunum og verðmæt viðbót við heimildir um þessar merkilegu dráttarvélar.

 

Haukur greinir þar m.a. frá því hvernig vélin var notuð til þess að brýna diska jarðvinnsluherfisins sem notað var svo betur ynni.

 

PJ-byggingar og Unnsteinn hleðslumaður Elíasson hafa nú búið um þessa dráttarvél í sýningarsal dráttarvélanna.

 

Þar horfast nú í augu þessi vél og W-4 vinnuhesturinn frá Stóra-Ási, en þessar tvær vélagerðir eru hvað merkustu frumherjar félagslegrar ræktunarverka bænda á síðustu öld.


Landbúnaðarsafnið þakkar af alhug fúslega veittan stuðning við flutninginn...