5. október 2014

Landbúnaðarsafn opnað 2. okt. sl.

Landbúnaðarsafn var opnað á nýjum stað - í Halldórsfjósi - fimmtudaginn 2. október sl.   Björn Þorsteinsson rektor LbhÍ, formaður stjórnar safnsins, setti hátíðina kl. 16 í Suðurhlöðunni þar sem búin hafði verið út hátíðaraðstaða.

 

Þá sagði Bjarni Guðmundsson sögu safnsins og rakti aðdraganda að sýningu safnsins sem þarna hefur verið sett upp.

 

Hönnuður sýningarinnar er Björn G. Björnsson  (www.leikmynd.is )

 

Karlakórinn Söngbræður söng nokkur lög og gerði lukku undir stjórn Viðars Guðmundssonar söngstjóra.

 

Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri flutti ávarp og afhenti blómakveðju Borgarbyggðar. Fleiri kveðjur bárust, m.a. frá PJ-byggingum, Framfarafélagi Borgarfjarðar, Oddnýju Sólveigu og Guðmundi Hallgrímssyni, Guðbjarti Hannessyni alþm., Búdrýgindum í Árdal og frá Ullarselinu sem við þetta tækifæri opnaði nýja verslun sína í anddyri safsins.

 

Síðan var formleg opnun:

 

Jóhannes Ellertsson setti hrútshornahúna á inngangshurð og Anna Guðný Ásgeirsdóttir, staðgengill þjóðminjavarðar, opnaði inn á sýninguna með því að leysa reipi úr dyrum hennar.

 

Þar beið kaffi, sem Kvenfélagið 19. júní veitti og var það gjöf félagskvenna til safnsins.

 

Talið er að um 200 manns hafi komið til samkomunnar sem tókst prýðilega.

 

Samkoman stóð langt fram undir kl. 18 og undu margir við að skoða sýninguna, auk þess að hitta mann og annan . . .