8. október 2014

Sýningin mælist vel fyrir

Fyrstu viðbrögð við hinni nýju sögusýningu Landbúnaðarsafns eru jákvæð - gestir bera lof á verkið og fyrir það erum við þakklát.

 

Það er Björn G. Björnsson hönnuður (www.leikmynd.is ) sem hannaði sýninguna, en Björn hefur verið ráðgjafi safnsins í sýningarmálum sl. tvo áratugi.

 

Björn hefur gríðarlega reynslu af því að setja upp sýningar, sem margar hafa orðið landsþekktar, svo og viðburði, og ekki spillir að hann er gamall kúasmali úr Borgarfirði og veit því nákvæmlega hvað málið sýst um þegar um landbúnaðarsýningu er að ræða.

 

Samstarfið við Björn hefur verið ákaflega ánægjulegt og gefandi, og við höfum notið hinnar miklu þekkingar Björns á sviði sýningagerðar. Hugmyndum hefur verið velt upp og þær reyndar, og síðan hefur það ekki spillt að hafa aðgang að iðnaðarmönnum sem komu hugmyndum og teikningum í áþreifanlegt form.

 

Landbúnaðarsafn þakkar Birni G. Björnssyni fyrir samstarfið, ekki síst að þessari sýningu. Við gerum ráð fyrir framhaldi  samstarfsins því fleiri verkefni bíða í Landbúnaðarsafni. Nú söfnum við frekari kröftum  til þess að takast á við þau.