13. október 2014

Sleggjuskalli

Við opnun Landbúnaðarsafns í Halldórsfjósi 2. okt.  færðu góðvinir safnsins, Páll og Rita í Grenigerði, safninu sleggjuskalla, þann sem myndin er af.

Nú þykir einhverjum sleggjuskalli ekki vera það merkilegur gripur að taki því að ljá honum pláss á virti safnfréttasíðu veraldarvefjarins. Hann um það.

 

En skallinn ber það með sér að með honum hafi verið lamin fleiri en tvö högg. Má raunar lesa af honum erfiði áranna, jafnvel aldanna, svo mjög er hann orðinn upp hnoðaður.

 

Skallinn fannst í gömlum haug að Trönu sem er einn af Ferjubakka-bæjunum, og þau hjónin, Páll og Rita, tóku hann til handargagns fyrir löngu.

 

Smíði skallans vekur líka athygli. Hann er mjög óreglulegur að allri gerð, hefur sýnilega ekki verið staðalframleiðsla. Gæti það vakið grun um háan aldur.

 

Einhver stakk upp á því að hann gæti jafnvel verið kominn úr smiðju Skallagríms. Ágæt tillaga en líklega aðeins of djörf til þess að viðra megi á alvarlegu safni.

 

Vel má vera að einhver þekki maka slíks skalla, maka sem meira er vitað um aldur.

 

Og svo er það hitt: hvað notuðu menn stórsleggjur til fyrir tíma girðingastauranna: við járnsmíði? grjótvinnu? byggingar?  ....?

 

Tillögur og hugmyndir eru vel þegnar.