13. desember 2014

Skrafað um Skerpiplóg

Skerpiplógur kom til Íslands sumarið 1953 og átti eftir að koma víða við sögu jarðvinnslu. Hann var smíðaður hjá Underhaug í Noregi eftir hugmynd Ragnvalds Skjærpes. Í moldverpi plógsins var notað 16 mm brynstál úr Tirpitz, þýska sjódreganum sem sökkt var í Norður-Noregi.

 

Til Íslands komu einir 40 plógar. Landbúnaðarsafn heldur hlífiskildi yfir einum Skerpiplógi.

 

Verður hann settur upp við safnið. Sá er af stærri gerðinni (30") og var notaður í Borgarfjarðardölum.

 

Notkunarskeið Skerpiplóganna hérlendis var vart meira en áratugur. Þeir hentuðu við sínar aðstæður en voru til bölvunar í öðru umhverfi.

 

Þegar kalið kom til sögunnar um miðjan sjöunda áratuginn var plógurinn dreginn til ábyrgðar sem einn af fjölmörgum völdum kals...

 

Heimsíðungur er að tína saman sögukafla um Skerpiplóginn, bæði hönnunarsögu hans sem og notkun hérlendis.

 

Góðir heimildarmenn hafa lagt lið, en gaman væri að heyra frá fleirum sem minnast Skerpiplógsins og vinnu hans.

 

Hafið endilega samband, góðir lesendur, sem aflögufærir eruð!   Myndir væru líka vel þegnar . . .