19. desember 2014

Þáhyggjuvænn jólamarkaður í Hlöðusal Halldórsfjóss

Á morgun, laugardaginn 20. desember 2014, verður viðburður í Hlöðusal Halldórsfjóss á Hvanneyri:  Jólamarkaður, eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu.

 

Hlöðusalurinn er gamla Suðurhlaðan eins og hún hét í munni heimamanna. Eftir áætlun safnsins á það að vera fjölnotasalur, og hefur raunar verið brúkaður þannig undanfarið.

 

Undanfarið hafa PJ-byggingar og Arnar rafvirki auk fleiri verið að lagfæra salinn og búa hann til framtíðarnota. Stefanía Nindel og stöllur hennar hafa síðan útbúið sjálfan markaðinn.

 

Hann á eftir að koma ykkur á óvart, skal ég segja ykkur. Svo verður líka dagskrá í Hvanneyrarkirkju.

 

Ekki má gleyma því að Ullarselið verður líka opið og með lagi mun sömuleiðis mega kíkja í Landbúnaðarsafnið.

 

MUNIÐ BARA, elskurnar mínar, AÐ VERA VEL KLÆDD, einkum til höfuðs og handa. Sjarminn við góðan jólamarkað er nefnilega KULDINN, þegar tekst að klæða hann úti ...

 

Verið velkomin í Halldórsfjós!