5. janúar 2015

Gleðilegt ár - Skerpt um Skerpiplóg

Gleðilegt ár góðir lesendur !

 

Bestu þakkir fyrir samskiptin á liðnu ári.

 

Að þessu sinni birtum við mynd af skildi. Sá er kominn af Skerpiplógi.

Skoðið skjöldinn og svo höldum við áfram . . .

 

Um daginn var skrafað ögn um Skerpiplóg hér á síðunni.

 

Nú hefur borist töluvert viðbótarefni, bæði frá innlendum heimildarmönnum og erlendum.

 

Tveir ágætir menn á Jaðri, tengdir Underhaug, er  plóginn smíðaði, hafa m.a. sent verðmætt efni.

 

Greinin um Skerpiplóginn, sem átti að vera 2-3 blaðasíður, hefur nú teygt sig upp í tólf síður og er þó ekki öllu lokið enn.

 

Birt er mynd af verksmiðjuskilti plógs safnsins sem við hyggjumst setja upp. Spurning er hvort einhver lesandi, sem aðgang hefur að gömlum Skerpiplógi, mundi svipast fyrir okkur um hvort þar megi finna sambærilegan skjöld. Þá kæmi okkur vel að frétta framleiðslunúmerið.

 

Fleiri fróðleikskorn, ef þið eigið, væru vel þegin líka.

 

Endurtekin áramótakveðja frá safninu.