22. janúar 2015

Landbúnaðarsýning á Þingeyrum

 Í júlíbyrjun 1944 var haldin mikil héraðssýning - landbúnaðarsýning að Þingeyrum.

 

Tekin var kvikmynd á sýningunni, sem nú er varðveitt í Kvikmyndasafni Íslands að við best vitum. Heklubræður Sigfússynir færðu okkur Guðmundi Hallgrímssyni á Hvanneyri afrit af kvikmyndinni fyrir nokkrum árum.

 

Þann 15. janúar sl. fórum við Guðmundur með myndina norður, fyrir tilverknað og hvatningu Jóhönnu Erlu Pálmadóttur á Akri. Hún hafði séð til þess að kalla saman aldraða Húnvetninga til þess að skoða myndina og segja deili á efni myndarinnar ef þeir þekktu þar til.

 

Myndin var sýnd í setustofu Héraðshælisins á Blönduósi. Ríflega 20 manns komu þar saman. Kom í ljós að nokkrir þeirra höfðu verið á þessari sýningu og gátu því miðlað nokkrum fróðleik um efni hennar.

 

Rækilega var sagt frá sýningunni í Morgunblaðinu nokkrum dögum eftir sýninguna sem haldin var 9. júlí 1944. Í sumum heimildum er sýningin sögð hafa verið  haldin 1945, en nú er komið í ljós að svo var ekki. Hún var haldin 1944.

 

Kvikmyndin sem er örstutt sýnir það er til dagskrár var á sýningunni sem talið er að um 500 manns hafi sótt:

 

1. Kynbótasýning hrossa og kappreiðar

 

2. Ávörp og erindi, þ.m.t. erindi Árna G. Eylands um búvélar

 

3. Búvélasýning. Þar er m.a. sýndur sláttur með Allis Chalmers dráttarvél, sennilega þeirri fyrstu er til landsins kom og var keypt að Þingeyrum. Sú vél er enn til í Húnaþingi. Einnig er sýnd vélbinding á heyi með IHC-bindivél. Hvort tveggja var þá alger nýjung hérlendis enda sýnir kvikmyndin forvitni og áhuga sýningargesta.

 

Kvikmyndin gerði lukku meðal gestanna og sköpuðust líflegar umræður um efni hennar. Aðalatriði þeirrar umræðu voru skráð til síðari tíma nota, en kvikmyndin er bæði þögul og textalaus.

 

Við Guðmundur nutum heimsóknarinnar til hinna öldnu höfðingja og Jóhönnu, og ekki spillti vöfflukaffið. Kærar þakkir fyrir okkur.