2. febrúar 2015

. . . að standa á gati

Fyrir nokkrum misserum björguðu Grundarbræður í Reykhólasveit gagnmerkum lokræsaplógi sem þeir afhentu Landbúnaðarsafni. Frá plógnum var sagt hér á síðunni auk þess sem við birtum nú af honum mynd.

 

Plógar sem þessi þekktust framanvert á síðustu öld, voru þá dregnir af hestum.

 

Með ýmsum hætti höfum við reynt að grafa upp sögu þessa lokræsaplógs. Til þessa hefur leitin engan árangur borið.

 

Engu er líkara en lokræsaplógurinn hafi fallið af himnum ofan eins og þjóðfáni Dana - Dannebrog - og lent þarna á melnum við Reykhóla.

 

Enn er því gerð tilraun til þess að vekja athygli á heimildaskortinum í þeirri von að einhver kynni að vita eitthvað um málið eða hafa rekist á heimildir sem varðað gætu þennan merkisgrip.

 

Okkur grunar helst að á ferðinni sé norskur Engens-lokræsaplógur (Engens patent), ætlaður dráttarhestum, og þá ef til vill sá sem reyndur var að tilhlutan Verkfæranefndar BÍ sumarið 1927 - á Blikastöðum í Mosfellssveit.

 

Jóhannes vélameistari okkar er búinn að gera plógnum til góða. Með vorinu munum við koma plógnum fyrir í aðalsýningu safnsins.