16. mars 2015

Skrúfuþjósljár Torfa í Ólafsdal - Fyrsta einkaleyfi Íslendings

Torfi Bjarnason í Ólafsdal átti heiðurinn að verulegum umbótum í slætti.

 

Það gerði hann með því að kynna Íslendingum ensk ljáblöð sem tóku langt fram heimasmíðuðu einjárnungunum sem áður höfðu verið í orfum landsmanna. Þá  komu til sögu hinir svonefndu bakkaljáir.

 

En Torfi gerði fleira á því sviði. Hann hannaði og fékk smíðaða nýja gerð af ljá og varði til þess miklum tíma og fjármunum.

 

Svo langt náði hugmynd Torfa að hann fékk einkaleyfi á uppfinningunni hjá Viktoríu drottningu árið 1874 og náði einkaleyfið til hins breska efnahagssvæðis. Hins vegar skorti hérlenda löggjöf er stutt gat einkaleyfi Torfa.

 

Hugmynd Torfa að nýjum ljá byggðist á því að í stað þess að þjóið væri fast framhald af ljábakkanum og aðeins sveigt til þegar stilla þurfti legu ljásins eftir hæð sláttumannsins var þjóið skrúfað á bakkann. Með hentugum lykli og stilliskrúfu mátti því fyrirhafnarlítið stilla legu ljásins. Var það talið til mikils hagræðis á þeirri tíð.

 

Torfi Bjarnason var fyrstur Íslendinga til þess að fá einkaleyfi á uppfinningu en leyfið gilti ekki hérlendis af fyrrgreindri ástæðu. Um það hefur Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur fjallað sérstaklega í bók sinni Saga hugverkaréttinda.  

 

Torfi samdi við þekkta ljáasmiðju í Sheffield um smíði ljáanna. Þeir munu hafa orðið ögn dýrari en hefðbundir ljáir (bakkaljáirnir).

 

Torfi kynnti hinn nýja ljá, skrúfuþjósljáinn, rækilega og naut þá eflaust þeirrar athygli sem hann hafði hlotið fyrir ensku ljáblöðin er þóttu mikið afbragð. 

 

Það má hins vegar gera söguna stutta: Hinir nýju ljáir reyndust misjafnlega og virðast fljótlega hafa horfið af heimi svo rækilega að mér er ekki kunnugt um að varðveist hafi tangur af þeim.

 

Þótt þannig hafi farið um hugmyndina breytir það ekki því að þarna var á ferð fyrsta einkaleyfi Íslendings.

 

Við réðumst því í það að smíða eins konar eftirlíkingu af skrúfuþjósljá Torfa Bjarnasonar. Til er allglögg lýsing á hugmyndinni, sem og teikning. Eftir henni fór hagleiksmaður Landbúnaðarsafns,  hann Jóhannes Ellertsson.

 

Samkvæmt fyrirsögn Torfa skyldi ljárinn vera einjárnungur (CROWN-ljár). Við gerðum svo og völdum til þess gamlan ljá með svipað lag og á teikningu Torfa (Ljárinn sá er líklega smíðaður af Kverneland í Noregi).

 

Myndirnar, sem þessum pistli fylgja, sýna eftirgerðina af skrúfuþjósljá Torfa Bjarnasonar – og þá um leið eftirgerð þess grips er byggðist á fyrsta einkaleyfinu sem Íslendingur fékk á uppfinningu. 

 

Tekið skal fram að við erum búnir að "elda" gripinn um ein 80-100 ár með aðferð Jóhannesar.

 

Gripnum verður nú komið fyrir í þeim sýningarhluta Landbúnaðarsafnsins er víkur að íslenskra sláttusögu. Nánar verður sagt frá umbótasögu Torfa Bjarnasonar varðandi slátt og heyskap í bók sem heimsíðungur vinnur nú að og mun væntanlega koma út með haustinu, ef áform ganga eftir.

 

Árétta verður að hér er um eftirgerð uppfinningar Torfa að ræða, með þeim annmörkum sem slíkar hafa.

 

Vilji hins vegar svo ólíklega til að einhvers staðar á landinu bláa hafi varðveist skrúfuþjósljár frá Torfa í Ólafsdal væri afar mikilvægt að heyra af honum og þá að koma honum til framtíðarvarðveislu og sýningar.