8. maí 2015

Safnadagur í Landbúnaðarsafni 17. maí

Í tilefni þess að íslenska safnadaginn ber að þessu sinni upp á 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna, verður aðaldagskrá safnsins norskum áhrifum á íslenskan landbúnað:

 

1. kl. 13.30 mun Bjarni Guðmundsson halda erindi í Landbúnaðarsafni um norsk áhrif á íslenskan landbúnað, einkum á 19. og 20. öld. Fjallað verður um hugmyndir, þekkingu, aðföng, áhöld og verkfæri sem bárust frá Noregi til Íslands og hvernig þau höfðu  á framvindu íslensks landbúnaðar.

 

2. Að erindi Bjarna loknu verður stutt sögustund við Skerpiplóginn sem nú verður „afhjúpaður“ við safnið.  Haukur Júlíusson og fleiri munu þar segja nokkrar Skerpiplógssögur. Aðrir fyrrverandi Skerpiplógsmenn eru sérstaklega boðnir velkomnir til stundarinnar.

 

Landbúnaðarsafn verður opið kl. 13-16 og leiðsögn veitt eftir föngum.  Ullarselið verður opið á sama tíma.

 

Aðgangur að Landbúnaðarsafninu á Safnadegi er ókeypis en frjáls framlög þegin.

 

Það er ótölulega margt sem íslenskur landbúnaður hefur sótt til Noregs.

 

Í öndverðu fluttu landnámsmenn með sér búhætti og áhöld úr heimabyggðum sínum. Á 19. öld tóku Íslendingar að sækja búnaðarnám þar. Að námi loknu höfðu þeir gjarnan með sér heim áhöld og verkfæri sem þeir höfðu kynnst ytra, er urðu vel þekkt hérlendis, t.d. plóga, herfi og kerrur.

 

Minna má á Noregssaltpéturinn og Eylandsljáina, en steininn tók fyrst úr er hingað tóku að berast Gnýblásarar (høykanon), vélkvíslar (silosvans) og vélvögur (høysvans),  að ekki gleymist pökkunarvél fyrir rúllubagga. Íslenska „kynbótavélin“ fyrir búfé á sér sterkar norskar rætur og eitt og annað hafa Íslendingar sótt í norska landbúnaðarpólitík.  

 

Allt breytti þetta landbúnaðinum svo um munaði. Þá má minna á heitar umræður um norska nautgripi til kynbóta er áformað var að flytja til íslands um síðustu aldamót. Um þetta og fleira mun Bjarni fjalla í erindi sínu.

 

Skerpiplógurinn kom fram um miðja síðustu öld á Jaðrinum í Noregi, því mikla landbúnaðarhéraði. Hann vakti gríðarlega athygli og átti eftir að breyta miklu í landnámi og nýrækt þar í sveitum.

 

Plógurinn barst til Íslands fyrir tilstilli Árna G. Eylands,  og öðlaðist þegar miklar vinsældir ræktunarmanna sem þá stóðu í miklum stórræðum um allt land; voru að brjóta nýframræstar mýrar til landnáms með túnrækt. 

 

En atvikin höguðu því svo að Skerpiplógurinn hvarf úr ræktunarstarfinu svo  skyndilega sem dögg víkur undan morgunsól . . .