17. maí 2015

Eftir Norsk/Íslenska Safnadaginn 17. maí 2015

Landbúnaðarsafn hélt hátíðlegan Safnadaginn 17. maí. Bjarni Guðmundsson hélt erindi um norsk áhrif á íslenskan landbúnað einkum á 19. og 20. öld. Fram kom þar hversu mikil og fjölbreytt þau áhrif eru.

 

Síðan var gengið til minningarstundar og uppsetningar minningarskjaldar um Skerpiplóginn undir safnveggnum, en þar hefur verið komið fyrir upppússuðum tveimur plógum af þeirri merku tegund, sem um tíma komu mjög við íslenska ræktunarsögu. 

 

Jóhannes Ellertsson annaðist uppsetningu plóganna og frágang til sýningar, en hann er einmitt lengst t.v. myndinni ásamt þeim Bjarna og Hauki (t.h.)

 

Bjarni Guðmundsson flutti minningarorð um plóginn og Haukur Júlíusson sagði frá kynnum sínum af plógnum en Hauk teljum við síðasta Skerpiplógsmanninn í lýðveldinu.

 

Um 80 manns heimsóttu safnið og áttu þar góða stund. Ullarselið var opið og þar þeyttu þær rokka sína Kristín Gunnarsdóttir á Lundi og Ástríður Sigurðardóttir á Hvanneyri. 

 

Dagurinn reyndist prýðilegur og þakkar safnið þeim mörgu sem komu.