16. júní 2015

Dagskrá kvennadagsins 19. júní á Hvanneyri

Föstudaginn 19. júní verður margt um að vera á Hvanneyri.
Þá munu tvær listsýningar opna á staðnum.

Kl. 14:00 opnar sýning í kaffihúsinu í Skemmunni þar sýnir Elísabet Haraldsdóttir m.a. nýja kaffibolla. Þar verða kaffibarþjónar og sérfræðingar í mjólkurlist (e. Latte Art) frá Reykjavík Roasters og gefst gestum tækifæri til að fá sér kaffisopa úr sýningarbollunum.

 

Kl 15:00 opnar Ólöf Erla Bjarnadóttir sýningu á mjólkurkönnum sem hún brenndi í gas/viðarofni að Nýp á Skarðsströnd.

 

Bjarni Guðmundsson forstöðumaður safnsins mun opna sýninguna og segja nokkur orð um Mjólkurskólann á Hvanneyri og Hvítárvöllum og rjómabústýrurnar sem skólinn menntaði.

Mjólk og kleinur verða í boði kvenfélagsins 19. júní.

Kvenfélagið 19. júní sem á 77 ára afmæli þennan dag, býður upp á skemmtilegan fróðleik um konur, fyrirlestur sem Danfríður Skarphéðinsdóttir heldur á Skemmuloftinu kl 17.30. Á undan leikur Soffía Björg nokkur lög.

Við hlökkum til að fá gesti og gangandi í heimsókn að Hvanneyri.

Allir eru hjartanlega velkomnir.