19. júlí 2015

Safnið vantar tiltekna gerð hverfisteins

Um miðja síðustu öld voru (skv. Frey 1952 nr. 18, bls. 301-302) smíðaðir hverfisteinar - hverfisteinsgrindur - hjá fyrirtæki einu í Reykjavík. Ekki segir í Freysgreininni hvert fyrirtækið var.

 

Hverfisteinninn var að því leyti sérstæður að hann var mestan part úr járni svo ekki gæti hann fúnað eða gisnað.  Grindin var smíðuð úr vinkiljárni og vatnshylkið var "gert af gömlum hjólbarða" segir þar, sjá mynd.

 

Heimsíðung rekur minni til að hafa séð slíkar hverfisteinsgrindur á bæjum svo þær munu einhverja útbreiðslu hafa fengið.

 

Landbúnaðarsafn á gamlan og góðan hverfistein með trégrind svo sem algengastir vóru.

 

En af því að þarna var um innlenda fjöldaframleiðslu að ræða langar okkur ósköpin öll til þess að vita hvort einhver sem þessar línur les viti af  "járngrindarhverfisteini" sem gæti verið safninu falur.

 

Sjálfur steinninn þarf ekki endilega að fylgja með - hann má fá með öðrum hætti. Grindin er aðalatriðið.

 

Vissulega má smíða eftirgerð en skemmtilegra er að fá grip sem á sér sögu.

 

Má ég heyra/sjá frá einhverjum sem lagt gæti lið?   Síminn er 844 7740 og netfangið bjarnig@lbhi.is

 

Svo veit kannske einhver hvert fyrirtækið var sem smíðaði þessar hverfisteinsgrindur?