16. október 2015

Eitt elsta tæki safnsins - Engjahefill

Við vitum eiginlega ekki fyrir víst hvort hér fari eitt elsta tækið sem Landbúnaðarsafnið á. Við köllum það engjahefil þangað til annað betra heiti kemur.

 

Við teljum að hér sé á ferð eins konar veghefill sem Halldór Vilhjálmsson hafi útvegað til þess að sneiða þúfur af engjalöndum.

 

Heimildir eru um slíkt tæki á Hvanneyri um 1930, reynt á engjum þar.  

 

Hefillinn var fyrir hesta-afl, dreginn. Ökumaður sat á honum og þyngdi hann þannig. Járnbretti lóðrétt - eins konar hnífur - gekk ofan í svörðinn til þess að tryggja rásfestu hefilsins.

 

Stilla mátti hallar hefiltannarinnar, að því er séð verður.

 

Hefillinn mun ekki hafa reynst vel og þess vegna var hann lagður til hliðar og geymdur um langt árabil.

 

Um svipað leyti var ágætur þúfnaskeri reyndur á Hvanneyri, hann má líka sjá í safninu (Uhlig).

 

Það var svo liðugum áratug seinna sem Sigfús Öfjörð lét panta frá Ameríku beltavél með ýtitönn til sama verks, IHC TD9. Hugðist með tönninni sneiða þúfur af engjalöndum í Flóanum rétt eins og vörtur af handarbaki.

 

Það varð upphaf jarðýtuvæðingar ræktunar hérlendis og annarra nýmóðins verka.