21. október 2015

Verk eftir Pál á Húsafelli í safninu

Að þessu sinni vekjum við athygli á nýju nafni hér til hægri á síðunni, og myndinni sem þar er: Það er lágmynd gerð af Páli Guðmundssyni listamanni á Húsafelli, gerð úr rauðasteini þaðan.

 

 

Myndina gerði Páll sumarið 1993 en þá tók hann þátt í hleðslunámskeiði á Hvanneyri, því fyrst þeirrar tegundar er þar var haldið.

 

Myndin er af kennaranum á námskeiðinu Sveini Einarssyni frá Hrjót, sjá nánar hér til hægri. 

 

Páll kom með myndina annan námskeiðsmorguninn. Það þótti upplagt að setja hana í vegginn sem þátttakendur voru þá að hlaða. Þar var hún um árabil, gestum Gamla staðarins á Hvanneyri til sýnis. 

 

Þegar veggurinn góði þar undir Kirkjuhólnum var endurgerður fyrir nokkrum árum var myndin tekin í hús til geymslu, en hún er eign Bændaskólans.

 

Nú í haust var myndinni svo komið fyrir í sýningu Landbúnaðarsafns í Halldórsfjósi, eiginlega í þrennum tilgangi:

 

a. Til þess að gestir safnsins gætu notið þessa listaverks Páls á Húsafelli.

b. Til þess að minna á forystuhlutverk Sveins Einarssonar í endurreisn hinnar gömlu verktækni.

c. Til þess að minna á mikilvægt hlutverk hleðslumanna sögunnar er sáu til þess að reist voru traust mannvirki úr torfi og grjóti, einu byggingarefnunum sem Íslendingar höfðu aðgang að.