16. nóvember 2015

Á Degi íslenskrar tungu

Á Degi íslenskrar tungu skal bara tekið eitt orð til þess að minna á það hve þjált tungumálið okkar getur verið og náð yfir marga hugsun og marga hluti.

 

Á ofanverðri nítjándu öld kom fram tæki sem miklu breytti í matvælaframleiðslu landbúnaðar. Separator hét það á útlendu máli - "Aðskiljari", væri búnaðarfélagsþýðingu beitt á hugtakið.

 

Svo sem vitað er var þetta tækið sem megnaði að skilja fitu mjólkurinnar - rjómann - frá öðrum megninefnum hennar- undanrennunni.

 

Orðhagur maður datt ofan á hugtakið skilvinda. Varla er hægt að hugsa sér nákvæmari nafngift enda virðist heitið hafa numið land á örskömmum tíma. Það er einkenni vel heppnaðrar orðasmíði.

 

Og við tókum að nota heitið skilvinda, heimsíðungur man ekki eftir öðru íslensku heiti á þessari músíkölsku heimilisvél. Nágrannar héldu hins vegar áfram að tala um separator með örlitlum mismun á því á hvaða atkvæði orðsins áherslan lenti.

 

Ögn um skilvinduna má hins vegar heyra og sjá á eftirfarandi slóð:

https://www.youtube.com/watch?v=gMamAvZk_QE 

 

Á þessum vettvangi hefur líka verið minnst á orðið þúfnabani - heiti sem mjög fljótlega festist við hina merkilegu jarðvinnsluvél er barst til Íslands sumarið 1921.  

 

Þar studdust menn ekki við neina þýðingu erlends heitis heldur spratt heitið af hnyttiyrði sem féll af vörum áhorfanda að hinum mikilvirku vinnubrögðum vélarinnar. Erlendum gestum safnsins þykir þessi nafngift jafnan afar athyglisverð þegar hún er skýrð út fyrir þeim.

 

Íslenska - Það er málið.