24. nóvember 2015

Óþekktur gripur - Þekkir þú gripinn?

Á dögunum barst í hendur Jóhannesar Ellertssonar torkennilegur hlutur. Við þurfum aðstoð til þess að greina hann.

 

Myndirnar 1, 2 og 3 sýna hlutinn en til viðbótar má lýsa honum þannig:

 

 

Gripurinn er gerður úr vönduðu (þéttu) tré (furu?), nær kvistalausu. Hann minnir á haka, er tæpl. 36 cm langur og 10 cm breiður þar sem hann er breiðastur.

 

Á honum eru tvö göt. Stærra gatið er kónískt og veit gildara op þess fram ef um væri að ræða haka, þar er það um 3,5 cm í þvermál  en 2,5 cm það sem aftur veit við sömu viðmiðun. 

 

Á „blaði“ hlutarins er annað gat, 1,8 cm í þvermál. Stefna þess er ekki þvert í gegnum „blaðið“ heldur á ská líkt og um stag hafi þar verið að ræða.

 

Sérkennilega formuð hök eru á „efri“ enda spaðans, hvar af annað eins og fallið hefði á ás, 2,7 cm í þvermál.

 

Loks er X skorið í spaðann, sem gæti verið raðnúmer (?)...

 

Hluturinn er lúður en ekki mjög slitinn. Við teljum hann augljóslega heimasmíðaðan.Töluverð vinna hefur verið að smíða hann – höggva, tálga og pússa til.

 

Hluturinn er kominn úr búi Alberts Finnbogasonar er bjó á Erpsstöðum í Dölum 1947-1966, en þar áður á Skörðum í sömu sveit frá árinu 1940. Albert var frá Sauðafelli.

 

Þegar Albert brá búi á Erpsstöðum flutti hann til Reykjavíkur. Þá tók hann gripinn með sér ásamt nokkrum fleiri gömlum búsmunum. Við ályktum því að gripurinn hafi verið Albert tengdur og markverður með einhverjum hætti – En hverjum?

 

Hefur þú hugmynd? Eða tillögu?