14. febrúar 2016

Til minningar um merkileg tímamót

Á dögunum lauk meistari Jóhannes Ellertsson við að pússa upp fjölfætlu, KH 4. eina af þeim fyrstu sem til landsins komu.

 

Með komu fjölfætlanna, heyþyrlanna sem oftast kallast nú svo, varð mikil breyting á meðferð heys á þurrkvelli. 

 

Vélarnar þóttu "rifja", hræra í heyinu mun betur en eldri vélar, svo heyið þornaði jafnar og betur en áður þekktist.

 

Það var sumarið 1963 sem fyrstu vélarnar af þessum gerðum komu til landsins. Lausleg athugun sýnir að það voru vélar af gerðunum Fahr, sem Þór hf hafði umboð fyrir, og PZ, er Glóbus/Árni Gestsson hf, hafði þá á sínum lista.

 

Þetta sumar voru heyvinnuvélar þessar kynntar víða um land, svo sem blaðafregnir herma; þóttu undratæki. Fahr-fjölfætlan var send í prófun hjá Verkfæranefnd ríkisins á Hvanneyri sumarið 1963, en PZ kom í prófun árið eftir.

 

Með hliðsjón af þessu og til að minnast breytinganna stóru sem á þessum árum urðu var ákveðið að Landbúnaðarsafn kæmi sér upp góðu eintaki af Fahr-fjölfætlu fyrstu gerðarinnar.

 

Vel með farin vél fékkst hjá Guðmundir Grétari og Sigrúnu, bændum á Kirkjubóli í Dýrafirði. Þór hf (www.thor.is ) útvegaði það sem endurnýja þurfti og safnið lagði til vinnu Jóhannesar Ellertssonar við endurgerð vélarinnar.

 

Nú er Fahr-inn sem sagt kominn í sitt fyrsta horf, vantar aðeins hina viðeigandi límmiða. Ekkert er því til fyrirstöðu að fara með vélina í flekk t.d. á Hvanneyrarfit þegar sumrar, og endurtaka fyrstu vinnubrögðin frá 1963 ...

 

Það er athyglisvert að á þeim liðlega L árum sem liðin eru frá því heyvinnuvélar þessar komu fram hafa ekki orðið meginbreytingar á vélum til heyþurrkunar á velli hvað grunngerð snertir - aðeins á stærð og tæknilegum útfærslum.