8. mars 2016

Íslenskar uppfinningar til landbúnaðar

Sem kunnugt er er langmest af þeim verkfærum og þeim vélum sem við Íslendingar notum og höfum notað til landbúnaðar innflutt - en þó ekki allt:

 

Í Fréttablaði Bændablaðsins (1. tbl. 2016), sem nýlega kom út, er grein um tólf íslenskar uppfinningar á sviði verkfæra og tækni til ræktunar. Þetta eru aðeins dæmi, líklega þau útbreiddustu, en mun fleiri eru þau ef að er gáð.

 

Áhugamönnum er bent áTímaritið, þar sem greinin er á bls. 62-65, en hér og hér má sjá lélegar ljósmyndir af efni hennar.

 

Landbúnaðarsafn hefur reynt að sinna íslenskum uppfinningum á sínu sviði, sem og aðlögun erlendrar tækni sérstaklega. Ef í sauma er farið er það margt sem fella má undir þennan flokk - allt frá einstaklingsbundnum lausnum til verkfæra sem nokkra útbreiðslu hafa hlotið.

 

Myndir og frásagnir af því sem mætti kalla íslenska hönnun, uppfinningu eða aðlögun þiggur Landbúnaðarsafnið því með þökkum. Fátt í þessu efni er svo ómerkilegt að ekki verðskuldi örlitla frásögn til varðveislu - Allt er það hluti af íslenskri verkmenningarsögu.

 

Og svona í lokin: Tímarit Bændablaðsins er flott rit, myndríkt og vel upp sett, hlaðið fjölbreyttu og skemmtilegu efni. Kíkið á það, ef þið hafið ekki þegar flett því.

 

Þá spillir ekki að í blaðinu er myndskreytt viðtal við Sigga Skarp - Sigurð Skarphéðinsson - einn helsta forystumann Fergusonfélagsins og mikinn velgjörðarmann Landbúnaðarsafnsins með félaginu.