12. maí 2016

Tíðindi frá safninu

Nú í lok apríl barst safninu bókagjöf frá Guðmundi Sigurðssyni frkvstj. og ráðunaut á Hvanneyri. Um er að ræða 42 búnaðarbækur og búnaðarrit, flest komin úr safni föður hans, sr. Sigurðar heitins Guðmundssonar á

Grenjaðarstað.

 

Sr. Sigurður, vígslubiskup á Hólum um skeið, var líka merkur bókamaður og kom sér upp mjög góðu bókasafni.

 

Meðal bóka í gjöfinni eru nokkrar fágætar búnaðarbækur frá nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu. Safnið þakkar Guðmundi hugulsemina.

 

Landbúnaðarsafn á þegar nokkuð safn búnaðarbóka frá fyrri tíð og geymir m.a. nokkur hundruð búnaðarbóka og -rita úr safni Árna G. Eylands, safn sem er annars í eigu Bændasamtaka Íslands.

 

Þá varðveitir safnið urmul bæklinga og blöðunga um búvélar, verkfæri og áhöld sem seld hafa verið hérlendis í áranna rás, m.a. fjölda bæklinga á íslensku sem töluvert var gefið út af á tímabili. Öll þessi rit eru með sínum hætti merk heimild um íslenska búnaðarsögu.

 

Gestkvæmt hefur verið í safninu undanfarið. Margir hópar hafa litið við þar og í Ullarselinu, sem hefur aðstöðu í anddyri safnsins.

 

Árlegir hópar bandarískra gesta (Best of Iceland) eru þegar teknir að líta við en þeir fá einnig fyrirlestur um íslenskan landbúnað. Horfur eru á að þeir hópar verði fleiri í ár en áður. Ragnhildur Helga Jónsdóttir annast móttöku gestahópa í safninu en heimsíðungur leggur henni lið.

 

Aðalfundur safnsins var haldinn 27. apríl sl. Rekstur þess gekk vel á síðasta ári, eins og fram kemur í ársskýrslu safnsins fyrir árið 2015 sem finna má hér á fréttasíðunni.

 

Þessa dagana er er verið að mála Halldórsfjós - safnhúsið - að utan. Hin sögumerka bygging mun því mæta sumri nýmáluð í hinum sígildu Hvanneyrarlitum - hvítu, rauðu og grænu. Það eru Fasteignir ríkisins sem annast verkið.