16. ágúst 2016

Hesjur - gömul íslensk heyþurrkunaraðferð?

Lengi vel hélt heimsíðungur að þurrkun heys á hesjum hefði verið óþekkt hérlendis, að hún hefði aðeins verið þekkt í skógríkari nágrannalöndum, t.d. í Noregi þar sem hún tíðkast enn í dálitlum mæli.

 

Aðferðin felst í því að hengja heyið á snúrur eða grindur þannig að vindurinn geti leikið um það. Til verður stráþak sem ver mest af heyinu fyrir vætu -  og heyið þornar á nokkrum dögum, nær því hvernig sem viðrar.

 

En svo fór að berast tíðindi af aðferðinni hérlendis: Norðan úr Árneshreppi, úr Gróðrarstöðinni á Akureyri, úr S.-Þingeyjarsýslu og sunnan úr Borgarfirði - öll frá fyrri hluta síðustu aldar.

 

Sjálfur reyndi heimsíðungur aðferðina, líklega sumarið 1977 vestur á Kirkjubóli í Dýrafirði. Hann setti þar upp nokkurra staura hesju með nýslegnu heyi, fremur grófu. Sunnanátt var með vætu. Heyið þornaði svo yfir nótt ríflega að vindurinn tók það, reif það af strengjunum. "Aðgerðin heppnaðist en sjúklingurinn dó" eins og þar stendur.

 

Nú langar mig til þess að vita hvort einhver kann frá fleiri dæmum um einhvers konar hesjuþurrkun eða grindaþurrkun heys hérlendis að segja?

 

Gaman væri ef viðkomandi vildi hafa samband við mig á Hvanneyri og greina frá vitneskju sinni. Síminn er 894 6368.

 

Bestu þakkir