30. nóvember 2016

Hænsnakynbótatækni

Í október sl. barst safninu sending frá velgjörðarfólki. Um er að ræða tvo kassa, afar vandaða að gerð. Kassar þessir voru til þess ætlaðir að flytja egg vegna kynbótastarfs í hænsnarækt.

 

Eggjakassarnir eru úr tré, 14x14 tommur á kant og 16 tommur á hæð (um 36x36x42 cm), með miklum og vönduðum eggjaumbúðum hið innra. Þeir eru frá The Dairy Outfit Co Ltd, Pocock´s Patent. Við athugun á Google sýnist þessi vara vera eftirsótt í dag.

 

Kassarnir eru komnir úr búi Magnúsar Stefánssonar (1891-1982) búfræðings er rak ásamt Arnbjörgu Jónsdóttur konu sinni hænsnabú að Laugahvoli sunnanvert í Laugarásnum í Reykjavík. Þau höfðu þar auk þess nokkrar kýr og kindur.

 

Hænsnaræktin að Laugahvoli var með fullkomnustu vélum þeirra tíma, og var Magnús fyrstur manna í Reykjavík til að flytja inn egg af holdakjúklingakyni erlendis frá og seldi síðan afurðirnar í neytendaumbúðum.

 

Á Laugahvoli bjuggu þau hjónin fram til ársins 1954 að búreksturinn var orðinn fyrir í  skipulaginu og þau þurftu að rýma landið með litlum fyrirvara, að því er afkomandi Magnúsar tjáir okkur.

 

Og sem dæmi um brúkun kassanna má taka minnisgrein frá Magnúsi bónda 19. mars 1944 en þá fékk hann „300 útungunaregg frá H.R.Hunter í Englandi“ 100 Hvíta Ítali, 100 High Sussex og 100 R.I.R.

 

Úr þessum flokki fékk hann alls 42 hænur „og byrjuðu þær að verpa 15. nóv. um haustið.“

 

Magnús var með þeim fyrstu er stunduðu kynbætur alifugla með kynbótum hérlendis byggðum á innflutningi og um innflutninginn vitna þessir kassar.