23. júní 2017

Safnið fær jarðýtu að gjöf

Á dögunum bættist Landbúnaðarsafni verulega mikilvægur gripur.

 

Skógrækt ríkisins afhenti safninu jarðýtu, International Harvester TD 6, árgerð 1944. Vélin hafði um árabil þjónað Skógræktinni og hlotið þar afar góða meðferð í hvívetna. Að því leyti er þessi gripur því verðmætur enda flestir jafningjar hans útslitnir af erfiðisverkum, oft við mjög slæmar aðstæður.

 

Forsíðumyndin er tölvuunnin ljósmynd af sams konar vél og kom á frímerki fyrir fáeinum árum, unnin af Hlyni Ólafssyni.

 

Ýtan var síðast í umsjá Birgis Haukssonar skógarvarðar á Hreðavatni en hann hlutaðist einkum til um þessa ráðstöfun. Meðfylgjandi mynd sýnir þessa ýtu krossa Krossá í Þorsmörk fyrir mörgum árum en mest var hún notuð í þágu skógræktar á Suðurlandi.

 

Vonandi gefast safninu möguleikar á næstu árum til þess að sýna vélina sem hluta af þróunarsögusýningu þess. Þangað til verður hún geymd í vélaskála safnsins á Hvanneyri.

 

IHC-jarðýturnar áttu stærstan hlut að ræktunarbyltingu áranna 1945-1960 og því er þessi vél afar góður fulltrúi þeirra byltingartíma og þeirra breytinga er þá urðu í sveitum landsins og á högum bænda.

 

Landbúnaðarsafn þakkar Skógræktinni fyrir þessa góðu gjöf.