12. júlí 2017

Stórmerk gjöf Ferguson-félagsins

Með formlegri athöfn á Hvanneyrarhátíðinni sl. laugardag, 7. júlí, afhentu fulltrúar Ferguson-félagsins Landbúnaðarsafni stórmerka gjöf:

 

Það er afturhluti af Ferguson TE-A20 (1951) sem skorinn hefur verið upp þannig og glerjaður að sjá má til vökvalyftunnar og stýribúnaðar hans.  

 

Þannig má fræðast um merkilega uppfinningu Harry Ferguson og manna hans framanvert á síðustu öld - uppfinningu sem breytti dráttarvélum svo um munaði ... Líklega mesta framför sem varð í smíði þeirra á öldinni.

 

Vélarhlutinn hefur verið útbúinn þannig að með handsveif í stað mótors má knýja búnaðinn og og sjá og fræðast um virkni hans.

 

Sýnisgrip þennan útbjó Sigurður Skarphéðinsson með nokkrum félögum í Ferguson-félaginu. Sigurður afhenti gripinn en Bjarni Guðmundsson þakkaði fyrir hönd safnsins.

 

Þá afhenti Ragnar Jónasson Fergusonfélagi sveif á Ferguson (disel), nákvæma eftirgerð af slíkum sveifum með ábendingu um að hana mætti nota við keppni að ári í því að snúa dísel-Ferguson í gang. 

 

Gripirnir fönguðu strax athygli gesta og varð þegar þéttskipað í kringum gripina. Þetta er í þriðja sinn sem Ferguson-félagið færir Landbúnaðarsafni stórar og verðmætar gjafir.

 

Landbúnaðarsafn færir Ferguson-félaginu mijklar þakkir fyrir þessa góðu gjöf.

 

Myndin sem fréttinni fylgir var tekin þegar félagarnir komu með gripinn að Hvanneyri. Þar er Þór Marteinsson F.félagi, lengst til vinstri, þá Ragnhildur Helga safnsstjóri, Sigurður Skarphéðinsson F.félagi og Bjarni Guðmundsson fyrrum safnstjóri.

 

(Ljósmynd: Ferguson-félagið/SS)