12. ágúst 2017

Steyputunna á ramböldum

Í dag, 12. ágúst 2017, færði Ingimundur Benediktsson frá Staðarbakka í Miðfirði safninu að gjöf steyputunnu á bretti eins og þær sem í flestum sveitum voru brúkaðar á öndverðri steypuöldinni þar.

 

Tunnan er af heimaslóðum Ingimundar. Hún þarfnast minni háttar viðgerðar en henni fylgir viðeigandi búnaður, meira að segja lykkjur til þess að nota hana við moksturstæki dráttarvélar eins og síðar var gert.

 

Ingimundur smíðaði af hagleik sínum brettið undir tunnuna í þeim stíl sem algengur var.

 

Steyputunnur með þessum umbúnaði léku stórt hlutverk við húsbyggingar í sveitum er steinsteypa kom til sögu. Tunnunni var velt með kaðli sem hestur dró, frá og að. 

 

Steypuvinna var félagsleg aðgerð, bændur með sínum mönnum mættu til nágranna sinna þegar kom að steypuvinnu, og síðan var goldið í sama.

 

Ingimundur mun senda okkur línur um grip þennan og notkun hans í Miðfirði, en tunnan var búnaðarfélagseign norður þar.

 

Safnið færir Ingimundi bestu þakkir fyrir hugulsemina, en Ingimundur er einn af hollvinum safnsins.