7. október 2005

Spunavélar og merkilegur tími þeirra

 Heimsíðungur fór á bæ í gær við annan mann. Fengum gott morgunkaffi og fróðlegt spjall við húsbændur - þar á meðal um spunavélar.  Á fyrri hluta síðustu aldar urðu stórar spunavélar algengar í sveitum landsins, 20 þráða og jafnvel stærri. Þetta var undir lok heimavinnslutímans. Margar þessara véla eru til enn og er saga þeirra hin merkasta.

Margar þessara véla voru félagseign - hreppa eða búnaðarfélaga og a.m.k. hér í Borgarfirði var þeim gjarnan komið fyrir nær jarðhita svo vel færi um þann sem spann. Þannig var spunavélum komið fyrir bæði við Hreppslaug í Skorradal og að Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal.

 

Líka var til að spunavélarnar væru fluttar á milli bæja, enda þannig að gerð að fremur auðvelt var að taka þær í sundur. Hagleiksmenn í héraði smíðuðu spunavélar, sem margar voru þó svipaðrar gerðar. 

 

Spunavélar þessar tóku gjarnan mikið pláss, ekki minna 8-9 fermetra gólfs. Það er etv. líka skýringin á því að óvíða eru þær sjáanlegar á söfnum þótt margar séu til enn. Heimsíðungur hefur þó séð eina í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.

 

Svo rart sem það nú er var spuninn á þessum vélum einkum karlmannsverk; var þó tóvinna fyrrum mest vinna kvenna. En þarna gerðist það sama og með mjaltavélarnar: þegar kvennaverk var vélvætt varð það oftar en ekki karlaverk upp frá því!

 

Nú bíður spunavél þess að verða sett upp í Búvélasafninu á Hvanneyri. Enn kunna ýmsir (!) að beita þessum vélum og í því lopaæði sem nú geisar er vel við hæfi að draga þessa merku vél fram í dagsljósið...